Brim hf.

Árs- og sjálfbærnisskýrsla 2021

Árs- og sjálfbærnisskýrsla 2021

Miklar fjárfestingar félagsins í hátæknivinnslubúnaði á síðustu misserum skiluðu sér í aukinni framleiðslu á verðmætari afurðum sem seldar voru á mörkuðum sem greiða há verð fyrir gæðavörur. Fjárfesting í nýjum skipum og aflaheimildum á síðustu árum eru einnig að skila sér betur og betur inn í reksturinn.

Guðmundur Kristjánsson
Forstjóri Brims

Ávarp forstjóra

Brim sýndi styrk sinn á síðasta ári. Starfsfólk Brims steig ölduna og sýndi þrautseigju annað árið í röð í erfiðu árferði vegna Covid heimsfaraldrar. Rekstur Brims gekk vel og og skilaði félagið góðum rekstrarárangri. Allsstaðar í fyrirtækinu - eftir endilangri virðiskeðjunni, jafnt við veiðar, vinnslu, markaðssetningu og sölu afurða var brugðist við aðstæðum á skjótan og öruggan hátt og á starfsfólk Brims og dótturfélaga miklar þakkir skyldar fyrr góða frammistöðu. Enn og aftur kom í ljós hversu mikilvægt er að félagið hafi tök á virðiskeðjunni allri því þannig fæst yfirsýn og aukin sveigjanleiki sem skiptir öllu máli þegar aðstæður breytast út í hinum stóra heim, þar sem okkar viðskiptavinir og markaðir eru.

Veiðin gekk vel á árinu og sala á okkar afurðum á erlendum mörkuðum gekk vel. Miklar fjárfestingar félagsins í hátæknivinnslubúnaði á síðustu misserum skiluðu sér í aukinni framleiðslu á verðmætari afurðum sem seldar voru á mörkuðum sem greiða há verð fyrir gæðavörur. Fjárfesting í nýjum skipum og aflaheimildum á síðustu árum eru einnig að skila sér betur og betur inn í reksturinn. Vörusala Brims nam 387,9 milljónum evra en 292,4 milljónum árið áður og var hagnaður ársins 75,2 milljónir evra í samaburði við 29,4 milljónir 2020. Afkoma félagsins án tillits til vaxtagreiðslna og vaxtatekna, skattgreiðslna og afskrifta eða svokölluð EBITDA var 94,2 milljónir evra og sem hlutfall af heildartekjum nam hún 24%. Heildareignir félagsins voru 795.5 milljónir evra og var eiginfjárhlutfall Brims 50% í árslok.

Fimmta árið í röð er í ársskýrslu Brims gerð ítarleg grein fyrir öðrum starfsþáttum félagsins en fjárhagslegum en þar vega þyngst sjálbærni, vistspor, mannauðsmál og samfélagsleg ábyrgð. Með þeim hætti geta stjórnendur, hluthafar og almenningur séð hvert framlag fyrirtækisins er til almennra framfara og umbóta sem stefnt er að með heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna en félagið hefur einsett sér að vinna að þeim.

Á árinu lagði Brim líkt og áður áherslu á nýsköpun og samfélagsábyrgð. Brim skráði á árinu græn og blá skuldabréf en með útgáfu þeirra fjármagnar fyrirtækið verkefni sem stuðla að sjálfbærni, hafa jákvæð áhrif á umhverfið og snúa að verkefnum tengdum hafi og vatni. Samkvæmt okkar upplýsingum er Brim fyrsta sjávarútvegsfyrirtækið í heiminum til að gefa út blá skuldabréf. Einnig má geta þess að Brim var valið Samfélagsstjarna ársins 2021 á Viðskiptahátíð atvinnlífsins sem haldin var í lok árs, fyrir víðtækan stuðning við íþróttir og æskulýðsstarf, slysavarna- og björgunarstarf, menningarstarf, nýsköpun og fræðslu. Ég vil sérstaklega nefna stuðning Brims við íslenska tungu m.a. með því að styðja við bakið á Hinu íslenska bókmenntafélagi, bjóða upp á íslenskunámskeið fyrir starfsfólk sem ekki hefur íslensku að móðurmáli og með því að ýta úr vör átaki til að minna á að sjávarhættir og sjósókn eru samofin íslenskri menningu og tungu eins og sést vel á fjölmörgum málsháttum og orðtökum sem vísa í þá átt. Það er mín skoðun að Brim geti bætt starfskilyrði sín og samkeppnishæfni með því að efla og styrkja nærsamfélagið, auka sjálfbærni og virða allt sitt umhverfi.

Við hjá Brimi gleðjumst yfir aflasælu ári. Við leggjumst öll á árarnar og horfum bjartsýn til framtíðar enda fær í flestan sjó.

Fjárfestingar

Brim er fjársterkt félag með mikið eigið fé sem er að stórum hluta kyrrsettur hagnaður. Eigendur félagsins geta ráðstafað hagnaði eftir skattgreiðslur annað hvort til hluthafa sem arðgreiðslur eða kyrrsett inn í félaginu til frekari vaxtar og til að auka getu félagsins til fjárfestinga. Það er stefna félagsins að skipta hagnaði eftir skatta á hverju ári til helminga þar sem annar hlutinn rennur til hluthafa sem arður og hinn hluturinn er kyrrsettur hjá félaginu til fjárfestinga og vaxtar félagsins. Á síðustu 30 árum hefur um 60% af hagnaði Brims verið kyrrsettur til fjárfestinga og styrktar reksturs félagsins. Hefur það skilað Brimi fjárhagslegum styrk þannig að á undanförnum árum hefur félagið fjárfest í nýsmíði á togurum og uppsjávarskipum, kaupum á sjávarútvegsfélögum eins og Ögurvík og Kambi og endurnýjun á hátæknivinnslubúnaði í Norðurgarði í Reykjavík og kaupum á sölu og markaðsfyrirtækjum í Asíu og Austur Evrópu. Í allar þessar fjárfestingar var farið án of mikilla skuldsetninga. Ég tel að þetta sé góð eigendastefna sem sýnir að eigendur félagsins vilja að félagið sé fjárhagslega sterkt og sjálfstætt gagnvart lánastofnunum.

Á síðasta ári voru fjárfestingar hins vegar minni en oftast áður og er ein af ástæðum þess að vexti Brims í útgerð á Íslandi eru settar skorður. Raunar var það svo að Brim þurfti að minnka við sig aflaheimildir á síðasta ári vegna útreikninga á heildarþorskígildum. Í kjölfar óvenjumikillar úthlutunar á veiðiheimildum á loðnu varð Brim að selja frá sér aflaheimildir sem félagið hafði alla burði og getu til að veiða og vinna. Aflamark Brims í hverri fisktegund er innan marka en við mat á heildar þorskígildum félagsins fór félagið yfir 12% hámark.

Hér að neðan má sjá mynd sem sýnir heildarþorskígildi á Íslandsmiðum frá árinu 2015 til dagsins í dag.  Þar sést að fram til 2021 er heildarþorskígilidin um 430-440 þúsund tonn á ári en árinu 2022 fer heildin í 603 þúsund þorskígildistonn. Hlutfall loðnu af heildarþorskígildum hækkar á einu ári frá 0% í 37.4%. Ígildisstuðull loðnu hækkaði mjög mikið þar sem loðnan á síðustu vertíð var unnin í verðmætari afurðir en það var hægt þar sem fyrirtæki eins og Brim hafa fjárfest í betri skipum og vinnslubúnaði sem eykur verðmæti veiddrar loðnu. Afleiðing er að reiknuð þorskígildi Brims fara upp fyrir 12% af heildarþorskígildum sem er lögbundið hámark.

Eins og sjá má á myndinni er verðmæti loðnunar í reiknuðum þorskígildum orðin umtalsvert meiri en þorsksins. Lagagrein í lögum um stjórn fiskveiða um reiknireglur í þorskígildum skapar óvissu og eru ófyrirsjáanlegar og er mikilvægt að stjórnvöld endurskoði þessa ógagnsæu reiknireglu.

Aðstöðumunur

Samþjöppun í veiðum og framleiðslu sjávarafurða á alþjóðamörkuðum eykst sífellt. Helstu keppinautar íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja stækka sífellt og eflast á meðan vexti íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja er skorinn þröngur stakkur.

Ísland er í 17. sæti yfir aflahæstu þjóðir heims en á sama tíma kemst ekkert íslenskt sjávarútvegsfyrirtæki nálægt hundrað stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum í heimi. Ástæður eru m.a. þau markmið laga um stjórn fiskveiða að hvert sjávarútvegsfyrirtæki getur aðeins haft 12% af heildar þorskígildum sem eru á Íslandsmiðum. Verði áfram stuðst við þá aðferðarfræði við útreikning þorskígilda eins gert hefur verið fram að þessu mun hún veikja samkeppnisstöðu íslenskra sjávarútvegfyrirtækja á erlendum mörkuðum og því er mikilvægt að aðferðin verði hugsuð upp á nýtt.

Fyrir utan hámark á aflamarki fyrirtækja í einstaka tegundum og ofangreinda reiknireglu um þorskígildi sem þrengir vaxtamöguleika fyrirtækja í sjávarútvegi gildir einnig mjög þröng skilgreining og túlkun samkeppnisyfirvalda á hvernig samkeppnislög gilda um íslenskan sjávarútveg. Þegar íslenski samkeppnismarkaðurinn er skoðaður og hvernig Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt samruna fyrirtækja þar þá eru fyrirtæki oft og iðulega með vel yfir 30 til 40% markaðshlutdeild en í sjávarútvegi er hámarkið 12%.  Þetta þak mun hefta framþróun og nýsköpun í sjávarútvegi og veikja samkeppnisstöðu íslenskra sjávarútvegsfyritækja á erlendum mörkuðum. Einn helsti tilgangur samkeppnislega er að tryggja rétt neytenda á sínum heimamarkaði sem á ekki við þegar nær öll framleiðsla íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja er seld á erlenda alþjóðamarkaði. Eins og að framan greinir gilda mjög ströng lög um hámarks hlutdeild hvers sjávarútvegsfyrirtækis á veiðiheimildum. En síðan koma samkeppnislög í túlkun Samkeppniseftirlitsins á Íslandi að auki í veg fyrir samstarf og samruna fyrirtækja í sjávarútvegi sem leyfist í samkeppnislöndum okkar innan EES og ESB. Þetta gerist þrátt fyrir að lög frá Alþingi um stjórn fiskveiða tryggi dreifingu á aflamarki og þar með samkeppni um veiðiheimildir langt umfram það sem gerist í öðrum greinum og í öðrum löndum. En eins og kunnugt er þá er markaðshlutdeild fyrirtækja á íslenskum neytendamarkaði eins og í smásölu og dreifingu á olíu víða yfir 30% en ekkert íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja er nálægt þeirri yfirburðastöðu.

Þegar aðstöðumunur greina í sjávarútvegi er skoðaður er einnig ástæða til að draga fram ólík skilyrði sem útgerðir fiskveiðiskipa búa við í samanburði við þá vaxandi stoð í framleiðslu sjávarafurða sem fiskeldið er. Fiskeldisfyrirtæki á Íslandi með sjóeldisleyfi eru fá. Vöxtur þeirra hefur verið mjög mikill á allra síðustu árum og hefur framleiðslugetan frá árinu 2015 til dagsins í dag margfaldast. Löggjafinn hefur ekki sett stærðartakmarkanir á þessi fyrirtæki líkt og á útgerðir og þá er ekki bann við fjárfestingu erlendra aðila í fiskeldi líkt og í útgerð. Mikilvægt er fylgjast náið með þróun í þessum tveimur framleiðslugreinum sjávarafurða, veiði villtra fiska og eldi á næstu árum og sjá hvernig þróun þessara fyrirtækja mun verða. Bæði fyrirtæki sem stunda veiðar á villtum fiski og þau sem sinna eldi stefna að því að halda utan um alla virðiskeðjuna til neytenda enda gefur þróun erlendis skýrar vísbendingar um að endanlegur vilji neytandi er að vita hvaðan varan kemur. Þá vill neytandinn einnig vita kolefnispor vörunnar og hvaða áhrif hún hefur haft á samfélögin sem hún kemur frá.

Traust

Brim tekur samfélagslegt hlutverk sitt alvarlega og axlar ábyrgð og á samskipti við alla haghafa sem byggir á trausti. Á undanförnum árum hefur félagið hlotið margvíslegar viðurkenningar á sviði umhverfis- og samfélagsmála sem fyllt hefur starfsfólk félagsins stolti. Hjá því er hins vegar ekki hægt að horfa að sjávarútvegurinn sem atvinnugrein mætir víða tortryggni og vantrausti. Það er til mikils að vinna að skapa traust á atvinnugreininni. Með ítarlegu og reglulegu uppgjöri á öllum þáttum í starfi Brims þar sem gagnsæjar og áreiðanlegar upplýsingar eru settar skýrt fram er félagið að leggja sitt af mörkum til að skapa traust

Fyrirtæki eins og Brim eru hins vegar aðeins önnur hlið sjávarútvegs á Íslandi. Ríkisvaldið og opinberar stofnanir eru hin hliðin. Alþingi, sjávarútvegsráðuneytið, Hafrannsóknastofnun, Fiskistofa, Verðlagsstofa skiptaverðs, Samkeppniseftirlitið , Samgöngustofa og Ríkisskattstjóri eru stofnanir sem móta umgjörð sjávarútvegs á Íslandi. Allir þessir aðilar gætu með auknu gagnsæi, einfaldara og skýrara regluverki, leiðbeiningum og meiri fyrirsjáanleika og auðveldara aðgengi að upplýsingum lagt mikið afmörkum til að draga úr tortryggni og auka traust á greininni í heild sinni. Nú á tímum upplýsingaóreiðu og falsfrétta er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að allir þeir sem koma að þessari mikilvægustu atvinnugrein landsins leggi sitt af mörkum til efla upplýsta umræðu um greinina og auka traust á öllum þeim sem að henni koma.

Í sjávarútvegi er nóg til að deila um þó ekki sé deilt um staðreyndir. Þær verða alltaf að vera upp á borðum. Aukið gagnsæi og bættur aðgangur að upplýsingum ásamt einföldu og skýru regluverki er að mínum dómi lykillinn að því að við sem samfélag getum rætt og komist að samkomulagi varðandi skipan sjávarútvegs á hverjum tíma. Við þurfum að ná samkomulagi um skipulag sem tryggir þjóðinni um ókomna tíð sterkan og sjálfbæran sjávarútveg og sterka stöðu á alþjóðamarkaði um sjávarafurðir þar sem okkar afkoma ræðst í lokin. Það er til lítils að veiða og vinna fisk ef ekki finnast neytendur úti í hinum stóra heimi sem vilja kaupa og borða okkar góða fisk.

Um árs -og sjálfbærniskýrsluna 

 

Brim gerir nú fimmta árið í röð grein fyrir ófjárhagslegum þáttum starfsemi sinnar og í annað sinn með sameiginlegri árs- og sjálfbærniskýrslu.  

Allar upplýsingar í skýrslunni eru í samræmi við bestu þekkingu sem við höfum yfir að búa á þeim tíma sem skýrslan er rituð en er ekki tæmandi úttekt á öllum þeim áhrifum sem Brim hefur á umhverfi, samfélag og/eða efnahag. Skýrslan er ekki endurskoðuð af þriðja aðila en EFLA hefur yfirfarið framsetningu og upplýsingar um umhverfislega þætti.  

Upplýsingar um ófjárhagslega þætti starfseminnar eru unnar í samræmi við GRI Standard (e. Global Reporting Initiative GRI100-400) og UFS leiðbeiningar Nasdaq.